Erlent

Örvænting og gripdeildir vestra

Slagsmál brutust út og kveikt var í sorpi í yfirfullum og illa lyktandi íþróttaleikvangnum Superdome í gær. Þar höfðust tugþúsundir New Orleans-búa, á flótta undan flóðinu sem fellibylurinn Katrín olli, enn við. Þjóðvarðliðar streymdu til borgarinnar til að hjálpa til við að koma á lögum og reglu, en örvæntingar og gripdeilda varð æ meira vart. Unnið var að því að ferja um 25.000 manns, sem hafst hafði við í Superdome-leikvangnum, í rútum til Houston í Texas þar sem flóttafólkinu bauðst að dvelja um sinn í öðrum íþróttaleikvangi. Erfiðlega gekk að hafa stjórn á mannfjöldanum sem var orðinn óþreyjufullur að komast burt. Til slagsmála kom og eldur var kveiktur í sorpbing inni í íþróttahöllinni. 10.000 þjóðvarðliðar til viðbótar, hvaðanæva úr Bandaríkjunum, voru sendir inn á svæðið við strönd Mexíkóflóa sem verst varð úti í fellibylnum til að sinna björgunarstörfum og öryggisgæslu. Gripdeildir, skothríð, bílrán og önnur lögleysa hefur æ meir orðið vart á hamfarasvæðinu undanfarna sólarhringa. Alls eru nú 28.000 hermenn á vettvangi en allt stefnir í að þetta verði umfangsmesta hernaðaraðgerð sem þurft hefur að grípa til vegna náttúruhamfara í Bandaríkjunum. "Sannleikurinn er sá að hörmungar eins og þessar kalla fram það besta í flestum, en það versta í sumum," sagði Haley Barbour, ríkisstjóri Mississippi, í sjónvarpsviðtali. "Við erum að reyna að bregðast hart við gripdeildum." Fregnir um að skotið hefði verið á þyrlu sem sinnti björgunarstörfum á flóðasvæðinu fengust ekki staðfestar hjá talsmönnum yfirvalda. Tilkynnt var í gær að George W. Bush Bandaríkjaforseti myndi ferðast um hamfarasvæðið í dag og faðir hans, George Bush eldri, myndi ásamt Bill Clinton, fyrrverandi forseta, fara fyrir fjársöfnunarátaki til hjálpar fórnarlömbum hamfaranna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×