Erlent

Dregur aðeins úr hraða Katrínar

Aðeins er um klukkustund í að einhver öflugasti fellibylur sögunnar skelli beint á hjarta borgarinnar New Orleans í suðurhluta Bandaríkjanna. Það hefur dregið lítið eitt úr hraða fellibylsins Katrínar og er hann nú flokkaður sem fjórða stigs fellibylur á Saffire Simpson skalanum, sem er næsthæsta stigið. Katrín æðir þó enn áfram á nærri sjötíu metra hraða á sekúndu. Í gær var öllum íbúum borgarinnar, meira en milljón manns, skipað að yfirgefa borgina og hefur verið stöðugur straumur bíla út úr henni í alla nótt. Þeir sem einhverra hluta vegna sjá sér ekki fært að fara hafa flestir safnast saman í Superdome-höllinni í New Orleans. Þar voru um 30 þúsund manns samankomnir seint í gærkvöldi. Mikil öngþveiti hafði myndast þar fyrir utan þar sem lögregla þurfti að leita á öllum sem fóru inn og höfðu sumir heilu búslóðirnar í för með sér. Eyðileggingin sem Katrín mun valda ef hún lendir beint á New Orleans verður gríðarleg, ekki síst fyrir þær sakir að borgin stendur að mestu leyti um tvo metra undir sjávarmáli. Borgin yrði algjörlega lömuð í nokkra mánuði á meðan vatni yrði dælt burt auk þess sem það tæki mun lengri tíma að koma allri starfsemi í eðlilegt horf á nýjan leik. Íbúar Missisippi og Alabama hafa einnig verið varaðir við komu Katrínar og þar hefur þegar verið lýst yfir neyðarástandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×