Innlent

Samvinna í jarðhitamálum

Það er margt hægt að læra af Íslendingum í jarðhitamálum segir fulltrúi sendinefndar frá Níkaragva sem kominn er til landsins til að kynna sér tækni og þekkingu á því sviði. Sendinefndin undirbýr fyrirhugaða samvinnu stjórnvalda í Níkaragva og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í jarðhitamálum. Stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands samþykkti á síðasta ári að hefja þróunarsamstarf við Nikaragúa, í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka verulega framlög Íslendinga til þróunarmála á næstu árum. Nikaragúa er auðugt af jarðhita, en einungis um 10% af raforkuframleiðslu landsins eru fengin með nýtingu jarðhita. Þótt skipulag orkumála í landinu hafi tekið miklum breytingum, er lítil sem engin þekking til staðar hjá stjórnvöldum og ríkisstofnunum í jarðhitamálum. Stjórnvöld í Níkaragva óskuðu sérstaklega eftir samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhitamála. Embættismenn frá Níkaragva eru nú staddir hér á landi til að ræða við fjölda sérfræðinga í þessum efnum og fara í vettvangsferðir. Sendinefndin hefur skoðað Svartsengi, virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði og Nesjavelli, en hún fundar einnig með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúi nefndarinnar bindur miklar vonir við samstarfið við Íslendinga. Gioconda Guevara hjá Orkustofnun Níkaragva og telur þjóð sína geta lært mikið af Íslendingum á sviði jarðhitamálum og Níkaragva býður upp á mikla mögueleika sem ekki eru fullnýttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×