Erlent

Sýndu fjölmiðlum þorp í N-Kóreu

Norðurkóresk yfirvöld hafa hleypt fréttamönnum inn í þorp sem svo gott sem eyðilagðist í mikilli sprengingu í vor. 161 fórst og 8.000 heimili eyðilögust. Ryongchon er nítján kílómetra fyrir sunnan landamærin við Kína. 22. apríl í fyrra fór lest með leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Il, innanborðs í gegnum lestarstöðina í þorpinu og skömmu síðar varð gríðarleg sprenging á lestarstöðinni. Þorpið þurrkaðist því sem næst út, svo öflug var hún. Vegna nálægðar við landamærin spurðist harmleikurinn fljótlega út og aldrei þessu vant ákváðu norðurkóresk stjórnvöld að þiggja alþjóðlega aðstoð við uppbyggingu. Nýr skóli hefur verið tekinn í notkun og verið er að ljúka við byggingu sjúkrahúss. Námsefnið er þó alltaf það sama - takmarkalaus dýrkun á Kim Jong Il. Peak Myong Hui, nemandi í Ryongchong-skóla, segir að þegar sprengingin hafi orðið hafi hún séð kennara sinn vaða inn í eldinn til að bjarga myndum af Kim Jong Il. Þá hafi hún einnig séð börn leita grátandi að foreldrum sínum. Þrátt fyrir að norður-kóresk stjórnvöld hafi þegið aðstoð að þessu sinni bendir ekkert til þess að almenn stefnubreyting hafi orðið. Alþjóðastofnanir hafa því litla möguleika á að koma almennum borgurum til aðstoðar, en hungursneyð og fátækt er gríðarleg í landinu. Þær stukku því á þetta tækifæri og Suður-Kórea ein gaf jafnvirði 1300 milljóna króna til uppbyggingarinnar í Ryongchon. Leikmenn gæta sín þó á því að þakka réttum aðila fyrir hjálpina. Kim Yong Choi, varaformaður endurbyggingarnefndar í Ryongchon, segir að undir hlýlegri forsjá Kimgs Jongs Ils hafi verið lokið við að endurbyggja 80 prósent af Ryongchon. Enn eigi þó eftir að ljúka við menningarhöllina, héraðssjúkrahúsið og að leggja slitlag á vegi. Stefnt sé að því að ljúka þessu öllu fyrir 10. október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×