Erlent

Enn er allt í hnút

Ekkert varð af því að íraska þingið legði blessun sína yfir drög að framtíðarstjórnarskrá landsins í gær en þá rann frestur þess til þess út. Lík 36 Íraka fundust í gær en þeir voru teknir af lífi fyrir nokkrum árum. Á mánudaginn gáfu íraskir stjórnmálaleiðtogar sér þriggja daga viðbótarfrest til að ljúka við gerð stjórnarskrár og átti þingið að fjalla um drögin í gærkvöld. Síðdegis í gær tilkynnti hins vegar Bishro Ibrahim, einn talsmanna þingsins, að engin áform væru um þingfundi þann daginn og ekkert væri ákveðið um hvenær það kæmi saman næst. Enn virðist því vera bullandi ágreiningur á milli landsmanna um inntak þessa mikilvæga plaggs. Dæmi um sundrungina eru átök heittrúaðra sjía, annars vegar manna Muqtada al-Sadr, eldklerks frá Najaf, og liðsmanna Íslamska byltingarráðsins í Írak (SCIRI). Fjórir féllu í bardögum þeirra í Najaf í fyrradag og skarst í odda á milli fylkinganna víðar um landið í gær. Þær greinir á um hvort Írak skuli verða sambandsríki eður ei. Lík 36 manna, Kúrda að því er talið er, fundust skammt utan við Bagdad í gær. Hendur þeirra höfðu verið bundnar og þeir skotnir í höfuðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×