Erlent

Fjölgað í herliðinu í Írak

Aukið verður við herafla Bandaríkjamanna í Írak á næstu mánuðum, þegar kosningar fara fram í landinu. George W. Bush Bandaríkjaforseti segir óðs manns æði að kalla herinn heim þar sem það muni bjóða hættunni á hryðjuverkum heim. Bush gerði hlé á sumarfríi sínu í annað sinn á tæpri viku í fyrrakvöld þegar hann ávarpaði samkomu í Idaho þar sem komnir voru saman ættingjar hermanna í Írak. "Að kalla hermenn heim frá Mið-Austurlöndum um þessar mundir, eins og margir hafa krafist, myndi blása hryðjuverkamönnum kapp í kinn og skapa fyrir þá aðstæður til að gera árásir á Bandaríkjamenn." Landvarnaráðuneytið hefur tilkynnt að á næstunni verði 1.500 fallhlífarhermenn sendir til Íraks til að styðja þá 138.000 bandarísku hermenn sem þar eru fyrir. Þetta aukalið er ekki talið skipta sköpum en hins vegar sýnir ákvörðunin að Bandaríkjamenn eru ekki á leið frá Írak í bráð. Stuðningur við stríðsreksturinn fer mjög þverrandi í Bandaríkjunum og telur meirihluti þjóðarinnar að herinn eigi að kalla heim. Barátta Cindy Sheenan, móður hermanns sem féll í Írak, er sögð koma illa við kaunin á Bush.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×