Innlent

Allt að 100 þúsund fyrir fermetra

Hesthúsaeigendum í Glaðheimum hafa undanfarið verið boðnar 80.000 eða 100.000 krónur á fermetrann fyrir hesthús sín sem er hærra fermetraverð en fæst fyrir góð einbýlishús víða á landsbyggðinni, en til að mynda fæst jafnvel tvöfalt hærra verð fyrir hesthúsin en íbúðarhús í Vestmannaeyjum eða Höfn í Hornafirði. Ætla mætti að það þætti gott verð, en hesthúsaeigendum ber þó ekki saman um það. "Ég hugsa að þetta sé of lágt verð," segir Tómas Sigurðsson hestamaður í Kópavogi. Tómas er ásamt fleirum með 15 hesta í 100 fermetra húsi sem líklega myndu fást átta milljónir fyrir ef tilboðinu yrði tekið. Félagsmenn í hestamannafélaginu Gusti eiga húsin sjálfir, en Gustur leigir lóðina af Kópavogsbæ. Tómas telur að kostnaðurinn við að koma sér upp nýrri aðstöðu yrði mun meiri en verðið sem fæst fyrir húsið vegna lóðaverðs. Tómas hefur ekki trú á því að tölurnar sem fjárfestarnir hafa gefið upp í fjölmiðlum standist. Félagið sé lítið og flestir þekki deili hver á öðrum. "Ég veit ekki um neinn sem hefur selt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×