Erlent

Ójöfnuðurinn eykst stöðugt

Ójöfnuður er meiri í heiminum í dag en fyrir áratug og stór hluti heimsbyggðarinnar er fastur í gildru fátæktar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni Félagslegt ástand heimsins 2005: Gildra ójöfnuðar, sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í gær, er varað við vaxandi ójöfnuði um allan heim. Þar er því haldið fram að gjáin á milli ríkra og fátækra, menntaðra og ómenntaðra og sjúkra og heilbrigðra hafi snarbreikkað síðastliðin tíu ár. Helstu niðurstöður skýrsluhöfunda eru að ójöfnuður innan og á milli landa sé fylgifiskur hnattvæðingar en aftur á móti er viðurkennt að umdeilt sé hversu stóran þátt aukin einkavæðing og frjálsræði í efnahagslífi eigi í þróuninni. Þá er atvinnuleysi sagt enn of mikið, sérstaklega á meðal ungs fólks. Jafnframt er á það bent að dagstekjur nærri fjórðungs vinnandi fólks í heiminum séu enn undir einum bandaríkjadal á dag - með öðrum orðum undir fátæktarmörkum - og er ástandið sérstaklega slæmt í Afríku sunnan Sahara. Launaójöfnuður hefur aukist mjög á undanförnum árum, sérstaklega á milli fag- og ófaglærðra. Lægstu laun hafa lækkað en hæstu tekjurnar aukist gríðarlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×