Erlent

Olíuverð hækkar enn

Heimsmarkaðsverð á hráolíufatinu fór upp í 68 Bandaríkjadali í gær og hefur aldrei verið hærra. Ástæðan fyrir hækkuninni í gær er talin margþætt, meðal annars var tilkynnt um að olíubirgðir Bandaríkjamanna væru sjö prósentum lakari en gert hafði verið ráð fyrir. Ótti við fellibylinn Katarínu og að hann eyðileggi framleiðslu í Mexíkóflóa er talinn önnur ástæða hækkunarinnar sem og óstöðugleiki í Írak. Rodrigo Rato, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir ljóst að verð muni haldast hátt, að minnsta kosti til skemmri tíma, ef eftirspurnin heldur áfram að aukast á meðan afkastageta olíuhreinsistöðva stendur í stað. Framboð af olíu á heimsmarkaði á að vera nægilegt til þess að anna aukinni eftirspurn en fjárfesting í olíuhreinsistöðvum hefur ekki verið nægileg. Kínverjar hafa aukið olíunotkun sína mest allra þjóða og nú er svo komið að einungis Bandaríkjamenn kaupa meiri olíu en þeir. Innflutningur á hráolíu til Kína hefur þannig aukist um 5,4 prósent það sem af er árinu þrátt fyrir síhækkandi olíuverð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×