Erlent

Löglega boðað til kosninganna

Hæstiréttur Þýskalands úrskurðaði í gær að fyrirhugaðar þingkosningar mættu fara fram 18. september eins og ráðgert hafði verið. Tveir þingmenn höfðu lagt fram kvörtun þar sem þeir efuðust um lögmæti þess hvernig Gerhard Schröder boðaði til kosninganna í sumar. Kosningabaráttan er þegar hafin af fullum krafti en kjörfundur verður haldinn ári áður en kjörtímabilinu lýkur. Eftir þennan úrskurð Hæstaréttar er síðasta ljóninu rutt úr vegi. Gerhard Schröder kanslari hóf að undirbúa kosningarnar í vor þegar Sósíaldemókrataflokkur hans beið slæman ósigur í Nordrhein-Westfalen, fjölmennasta sambandslandi Þýskalands, í vor en þar hafði flokkurinn haldið um stjórnartaumana í nær fjörutíu ár. Horst Köhler forseti Þýskalands ákvað svo að kosið skyldi 18. september eftir að Schröder tapaði viljandi traustsatkvæðagreiðslu í júlí. Allt bendir til þess að stjórnarskipti verði í Þýskalandi í haust. Kristilegir demókratar með Angelu Merkel í broddi fylkingar eru með örugga forystu í skoðanakönnunum og búast má við að þeir myndi stjórn að loknum kosningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×