Erlent

Sannleikurinn um píanómanninn

Einhver leyndardómsfyllsta frétt sumarsins fjallaði um mállausan píanóleikara sem fannst rennandi blautur á breskri strönd. Eftir mánaðadvöl á breskri sjúkrastofnun er sannleikurinn um hann loksins kominn í ljós. Sagan af mállausa píanóleikaranum er næstum þjóðsagnakennd. Hann fannst fyrir rúmum fjórum mánuðum á ströndinni í Sheerness, hundblautur í jakkafötum með bindi. Hann var ekki með skilríki og miðar höfðu verið fjarlægðir af fötum hans. Enginn vissi hver maðurinn var og sjálfur sagði hann ekki orð. Hann var færður á sjúkrahúsið Little-Brook í Dartford, þaðan sem ótrúlegar sögur bárust. Starfsfólkið á að hafa rétt honum bleðil og penna svo að hann gæti skrifað nafnið sitt, en hann teiknaði flygil. Breskir fjölmiðlar greindu frá því að hann væri hreinn píanósnillingur sem léki verk stóru meistaranna tímunum saman. Allt vera þetta tómt kjaftæði. Í fyrsta lagi kann maðurinn ekkert á píanó, heldur barði alltaf sömu nótuna. Og á föstudaginn var kom í ljós að hann var hvorki mállaus né mikið veikur, því þá stundi hann því upp hver hann er. Þarna reyndist vera á ferð Andreas Grassl frá Prosdorf í Þýskalandi. Hann kvaðst hafa farið frá París til Bretlands eftir að hafa verið rekinn úr vinnunni sinni og reynt að fremja sjálfsmorð á ströndinni. Allt sem á eftir fylgdi telja Bretar nú að hafi verið leikrit, þar sem Andreas vann lengi með geðsjúkum og er talinn hafa notfært sér þá vitneskju til að plata starfsfólk sjúkrahússins. Andreas er nú kominn aftur til Þýskalands, þar sem enginn skilur neitt í neinu. Nágranni hans sagði hegðun hans vera ótrúlega. Hún sagði að hann væri gáfaður maður sem sem alltaf hefði staðið sig vel í skóla og hún sagði þetta auðvitað vera algjöran óþarfa honum að láta svona. Á sjúkrahúsinu íhuga menn nú skaðabótamál til að fá upp í kostnað við umhyggjuna en íhuga einnig hvort að ekki sé dulítið til í því að Andreas sé ekki með öllum mjalla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×