Erlent

Kæfður og vafinn inn í segldúk

Skoskir lögreglumenn upplýstu í gær að Rory Blackhall, ellefu ára, hefði að öllum líkindum verið myrtur en lík hans fannst á sunnudaginn. Málið hefur að vonum vakið mikinn óhug í Bretlandi. Á fimmtudaginn var tóku ættingjar Rory Blackhall, ellefu ára gamals drengs sem bjó í þorpi nærri Livingstone í Skotlandi, að óttast um hann en þá kom í ljós að hann hefði ekki sést í skólanum allan daginn. Michelle, móðir hans, hafði ekið Rory í skólann um morgunin og spurðist ekkert til piltsins fyrr en á sunnudaginn þegar líkið af honum fannst í skóglendi skammt frá, vafið í grænan segldúk. Í gær greindi svo lögreglan í Lothian og Borders að banamein Rory hefði verið köfnun af mannavöldum. Hins vegar liggur ekki fyrir að svo stöddu hvað banamaður hans notaði til að kæfa piltinn. Engir aðrir áverkar virtust á líkinu en frekari rannsóknir eru þó nauðsynlegar. Þessa stundina leita lögreglumenn að bakpoka Rory sem í voru ýmsir munir og kanna um leið vitnisburði íbúa svæðisins en margir þeirra staðhæfa að ókunnugir menn hafi verið á sveimi um þessar slóðir um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×