Erlent

Lætur ekki undan þrýstingi

Enginn áform eru uppi um að draga úr herafla Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan. George W. Bush Bandaríkjaforseti minntist tvö þúsund fallinna hermanna í ræðu í Salt Lake City í fyrrakvöld. Eftir því sem fleiri hermenn falla í Austurlöndum vex andstaðan við hernaðinn í Bandaríkjunum. Í ræðu sinni á landsráðstefnu fyrrverandi hermanna í Salt Lake City, Utah, á mánudagskvöldið lofaði Bush þær fórnir sem tvö þúsund hermenn í Írak og Afganistan hafa fært með lífi sínu. Hann ítrekaði aftur á móti að herir landsins verði ekki kallaðir heim frá þessum löndum þrátt fyrir vaxandi þrýsting. "Þeir eiga það inni hjá okkur að við ljúkum við það verkefni sem þeir gáfu líf sitt fyrir." Bush minntist ekki á Cindy Sheehan, móður bandarísks hermanns sem féll í Írak en hún tjaldaði fyrir utan búgarð forsetans og heimtaði að fá að hitta hann. Stuðningsmenn Sheehan héldu fund í Salt Lake City á sama tíma og Bush ávarpaði hermennina en þeir létu sér fátt um finnast um orð hans. "Það særir mig að heyra að fleira fólk verði að deyja þar sem þegar eru margir látnir," sagði Celeste Zappala frá Fíladelfíu, en sonur hennar féll einnig í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×