Erlent

Banvænasta flensa sögunnar

Fuglaflensa er banvænasta flensa sögunnar. Meira en helmingur þeirra sem sýkjast lifa ekki af. Staðfest hefur verið að mannskæð fuglaflensa hefur borist til sjö þorpa í Kasakstan. Talin er bráð hætta á að H5N1-stofn fuglaflensu breiðist út um vesturhluta landsins. Flensan, sem fannst í Síberíu um miðjan júlí, hefur breiðst til Rússlands og óttast er að farfuglar beri hana til Evrópu í vetur. Flensan hefur enn sem komið er ekki borist í mannfólk á þessum svæðum. Frönsk heilbrigðisyfirvöld segja hættuna á fuglaflensusmiti í Evrópu af völdum farfugla frá Rússlandi takmarkaða en að rétt sé að vera á verði. Alifuglaframleiðendur þurfa til dæmis að fylgjast vel með fuglum sínum. Víða hefur verið brugðið á það ráð að hafa alifugla innan dyra, til að draga úr smithættu. Dýralæknar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins funda í dag um hugsanleg viðbrögð. Innflutningur á fuglakjöti frá Rússlandi og Kasakstan hefur þegar verið bannaður. Framkvæmdastjórn Sambandsins taldi í gær óþarfa að gera frekari ráðstafanir að sinni. En það er ekki að ástæðulausu sem óttinn við fuglaflensuna er jafn mikill og raun ber vitni. Engin inflúensa í sögunni hefur jafn hátt dánarhlutfall. Af þeim hundrað og tólf sem vitað er að hafa smitast af banvæna stofninum hefur minna en helmingur lifað af. Dánarhlutfallið er fimmtíu og fimm prósent, mun meiran en spænska veikin á síðustu öld, til dæmis. Undir venjulegum kringumstæðum getur inflúensuvírus fjölgað sér í hálsi og lungum. H5N1 stofn fuglaflensunnar er hins vegar mun skæðari. Próteinið sem setur af stað fjölgun getur einnig orðið virkt í lifrinni, görnum og heila. Flensan er því ekki öndunarfærasýking heldur getur lagst á allan líkaman. Til viðbótar þessu kemur að frumuboðar frá ónæmiskerfinu eru margfalt fleiri þegar fuglaflensa leggst á menn en þegar venjuleg flensa er á ferð. Að jafnaði ráðast þessir frumuboðar á bakteríur en í miklu magni geta þeir haft lífshættuleg áhrif á vefi líkamans. Það er því ekki að ástæðulausu sem sérfræðingar hafa áhyggjur af fuglaflensunni, sem þeir segja einungis tímaspursmál um hvenær verði að alheimsfaraldri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×