Erlent

Ráðgátan um píanómanninn leyst

Píanómaðurinn svokallaði sem fannst holdvotur á strönd í Bretlandi fyrir fjórum mánuðum, hefur nú loks leyst frá skjóðunni og er farinn heim til Þýskalands. Þegar þessi dularfulli maður fannst á ströndinni áttunda apríl síðastliðinn, var hann klæddur kjólfötum, en rennandi blautur, og var talið hugsanlegt að hann hefði fallið fyrir borð á skemmtiferðaskipi eða snekkju. Hann mælti ekki orð af vörum, en teiknaði til þess að tjá sig. Meðal annars teiknaði hann píanó og þegar hann var settur niður við eitt slíkt, lék hann á það af listfengi. Myndir af manninum voru birtar í fjölmiðlum um allan heim og bárust bresku lögreglunni hundruð ábendinga. Þúsundir manna töldu sig hafa séð hann leika á konsertum einhversstaðar í heiminum. Margir Svíar töldu að hann væri sænskur, Norðmenn töldu að hann væri norskur og frakkar töldu að hann væri franskur götumúsíkant. Píanómaðurinn svokallaði hefur undanfarna fjóra mánuði dvalið á sjúkrahúsi, í Bretlandi. Þegar hjúkrunarkona kom inn í herbergi hans síðastliðinn föstudag spurði hún "Ætlar þú að tala við okkur í dag." Henni krossbrá þegar hann svaraði, "Já ætli það ekki." Sjúkrahúsið er bundið þagnarskyldu og má ekki gefa upp nafn mannsins eða annað sem hann snertir. Það hefur þó verið staðfest að Píanómaðurinn hafi verið útskrifaður. Brskir fjölmiðlar hafa hinsvegar eftir heimildarmönnum sínum að maðurinn sé samkynhneigður Þjóðverji sem hafi misst vinnu sína í Frakklandi og þá komið með lest til Bretlands. Hann hafi verið að hugsa um að fremja sjálfsmorð, þegar hann fannst í fjöruinni. Píanómaðurinn mun hafa skýrt frá því að hann hafi um skeið unnið á geðveikrahæli og hafi notfært sér reynslu sína þar til þess að leika á lækna og hjúkrunarfólk. Og nú er hann að sögn farinn til Þýskalands þar sem hann á tvær systur og föður sem er bóndi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×