Erlent

Flugslysið gerist æ dularfyllra

Líkur eru taldar á því að farþegar kýpversku þotunnar sem fórst á sunnudaginn með 121 manni innanborðs hafi misst meðvitund fljótlega eftir flugtak. Vélin flaug svo á sjálfstýringu þar til hún fórst. Flugslysið norður af Aþenu á sunnudaginn verður æ dularfyllra eftir því sem rannsókn á tildrögum þess miðar áfram. Sérfræðingar segja að gögn bendi til þess að þotan hafi flogið frá Kýpur til Aþenu á sjálfstýringunni einni saman, síðan virðist hafa slokknað á henni, hugsanlega af mannavöldum. Þeir reyna nú að meta hvort verið geti að farþegar og áhöfn hafi misst meðvitund fljótlega eftir flugtak. Það sem gerir málið enn leyndardómsfyllra er að flugmenn F-16-herþotna gríska hersins segjast hafa séð fólk inni í flugstjórnarklefanum reyna að ná stjórn á vélinni örskömmu áður en hún skall til jarðar í fjöllunum norður af Aþenu. Krufning á 26 fórnarlömbum slyssins sýnir að þau voru enn á lífi þegar vélin fórst en ekki er vitað hvort þau hafi verið með meðvitund. Niðurstöður eiturefnarannsóknar mun liggja fyrir á næstu dögum. Yfirmaður rannsóknarinnar segir málið það dularfyllsta sem hann hafi kynnst á fimmtíu ára ferli sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×