Erlent

Rússar eiga stysta ævi í Evrópu

Rússneskir karlmenn eiga stysta ævi allra karlmanna í Evrópu og er sláandi hve ævi þeirra hefur styst eftir fall Sovétríkjanna. Íslendingar verða hins vegar allra karla elstir. Meðalaldur rússneskra karlmanna er 58,8 ár og hefur styst um fimm ár síðan Sovétríkin liðuðust í sundur og milljónir manna urðu að fátæklingum í einu vetfangi þegar sparifé þeirra hvarf eins og dögg fyrir sólu. Íslendingar verða hins vegar allra karla elstir og eiga meira en tuttugu ár fram yfir rússa. Meðalaldur þeirra er 79 ár. Rússar eiga fleiri djöfla að draga. Af hverjum þúsund börnum sem fæðast þar ná tólf ekki eins árs aldri. Það er fimm sinnum hærri dánartíðni en á Íslandi. Fátækt er einnig stórkostlegt vandamál í Rússlandi og kannski ekki að furða þar sem eftirlaunaþegar voru strax árið 2000 orðnir fleiri en börn og vinnandi fólk í landinu. Einn af hverjum fjórum Rússum lifir undir fátækramörkum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×