Erlent

Friðarsamkomulag undirritað

Indónesíska ríkisstjórnin og uppreisnarmenn í Aceh-héraði á Súmötru skrifuðu í gær undir friðarsamkomulag. Þar með er vonast til þess að þriggja áratuga löngum átökum, sem kostað hafa 15.000 mannslíf, sé lokið. Friðarviðræður deilenda hafa staðið yfir í sjö mánuði undir stjórn Martti Athisaari, fyrrverandi forseta Finnlands. Viðræðulotan hófst eftir að flóðbylgjan mannskæða dundi yfir Aceh-hérað en erfiðlega gekk að dreifa hjálpargögnum vegna átakanna. Hamid Awaluddin, dómsmálaráðherra Indónesíu, og Malik Mahmud uppreisnarleiðtogi undirrituðu samkomulagið en það kveður á um að félagar í Frelsissamtökum Aceh njóti friðhelgi og héraðið fái takmarkaða sjálfstjórn. Indónesísk stjórnvöld munu draga verulega úr herstyrk sínum í héraðinu, þótt uppreisnarmönnum þyki reyndar ekki nóg að gert. "Þetta er upphafið á nýjum tímum í Aceh," sagði Athisaari við undirritunina. "Öllu skiptir hins vegar að báðir aðilar standi við skuldbindingar sínar sem samkomulagið kveður á um." Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið því vopnahlé sem var undirritað árið 2003 fór út um þúfur hálfu ári síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×