Erlent

Deilt um ný áfengislög í Bretlandi

Drykkjuvenjur Breta hafa orðið til þess að háværar deilur hafa spunnist um nýja áfengislöggjöf sem m.a. er ætlað að blása lífi í efnahag margra af borgum Englands og draga úr ofbeldi á götum úti. Andstæðingar löggjafarinnar segja hana hafa þveröfug áhrif. Til stendur að rýmka mjög afgreiðslutíma kráa og jafnvel leyfa sumum hafa opið allan sólarhringinn, en samkvæmt núgildandi lögum mega barir aðeins vera opnir til ellefu. Með þessum nýju lögum vilja stjórnvöld m.a. koma í veg fyrir að kráargestir streymi allir út á sama tíma með tilheyrandi slagsmálum og ólátum, svipað og borgaryfirvöld í Reykjavík gerðu á sínum tíma. Þá er markmiðið einnig að herja á djammþyrsta ferðamenn og unga Breta, en þannig telja yfirvöld að þau geti lífgað upp á þær borgir sem liðið hafa fyrir lokun stórra vinnustaða eins og verksmiðja. Dómarafélag Bretlands hefur hins vegar varað stjórnvöld við því að slaka á áfengislöggjöfinni og segir að rannsóknir sýni að aukin áfengisneysla leiði til fleiri alvarlegra ofbeldisglæpa. Undir orð dómaranna tekur lögreglan í Bretlandi sem óttast að álagið á fámennar næturvaktirnar verði enn meira. Þá gefa andstæðingar nýju laganna lítið fyrir þá fullyrðingu að rýmri afgreiðslutími leiði til þess að Bretar taki upp drykkjusiði nágranna sinna á meginlandi Evrópu. Þeir segja að Bretar sitji ekki rólegir á kaffihúsum og krám með eitt vínglas heldur svolgri í sig eins mikinn bjór og þeir geti og séu með háreysti og uppsteyt. Þetta sjái menn á þeim Bretum sem heimsæki sumarleyfisstaði í Suður-Evrópu þar sem afgreiðslutími skemmtistaða og kráa er mjög rúmur. Nú þegar hafa níu af hverjum tíu krám í Bretlandi sótt um leyfi til þess að hafa lengur opið, flestir til klukkan eitt, en nýju lögin eiga að taka gildi í lok nóvember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×