Erlent

Íranar eru hvergi bangnir

Stjórn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA hittist í höfuðstöðvum sínum í Vín í gær og ræddi til hvaða ráða skyldi gripið vegna vinnslu Írana á kjarnorkueldsneyti. Íranar hófu á mánudag að vinna gas úr hráúrani en það er fyrsta skrefið í auðgun þess. Írönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist ekki leiða gasið um skilvindur en það er næsta skrefið í augðunarferlinu. Í gær staðhæfði hins vegar íranskur útlagi, Alireza Jafarzadeh, í samtali við AP-fréttastofuna að 4.000 skilvindur hefðu þegar verið framleiddar. Slíkur tækjakostur gerir Írönun kleift að framleiða úran í kjarnorkusprengjur. Stjórn IAEA getur vísað málinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem aftur getur ákveðið að beita Írana efnahagsþvingunum láti þeir ekki af auðgunartilburðum sínum. Ali Shamkani, fráfarandi varnarmálaráðherra Írans, sagði í gær að ríkisstjórnin myndi frekar búa við viðskiptaþvinganirnar en að beygja sig undir vilja öryggisráðsins. Þá upplýstu embættismenn að þeir hefðu endurbætt Shahab-3 eldflaugar sínar en má búa kjarnaoddum og draga þær nú 2.000 kílómetra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×