Erlent

Discovery lenti heilu og höldnu

Geimferjan Discovery sneri aftur til jarðar í gær eftir 14 daga spennuþrunga ferð. Óvíst er hvenær geimferjurnar fara aftur út í himingeiminn því ekki liggur fyrir hver rót erfiðleikanna við flugtak þeirra er. Lendingar geimferjunnar Discovery hefur verið beðið með óttablandinni eftirvæntingu síðustu daga, ekki síst vegna skakkafalla í flugtakinu 26. júlí, svipuðum þeim og urðu Kólumbíu að fjörtjóni í febrúar 2003 þegar hún fórst með sjö manna áhöfn. Lendingu í Flórída á mánudagsmorgun var frestað vegna skýjaþykknis og í gær varð þrumuveður yfir Canaveral-höfða til þess að ákveðið var að flytja lendinguna til Edwards-herflugvallarins í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu. Klukkan 5:11 að staðartíma (12:11 að íslenskum tíma) lenti svo geimferjan í náttmyrkrinu. "Til hamingju með sérstaklega glæsilegt flug," sagði stjórnstöð Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA þegar ferjan hafði numið staðar. "Við erum fegin að vera komin heim og og við óskum öllum sem þátt tóku í leiðangrinum til hamingju með vel unnið verk," svaraði Eileen Collins, leiðangursstjóri Discovery. Skömmu eftir lendingu skoðaði áhöfnin farkostinn og var ekkert sem benti til annars en að allt væri í góðu lagi. Engu að síður ítrekaði Michael Griffin forstjóri NASA í gær að óvíst væri hvenær geimferjum stofnunarinnar yrði skotið út í geiminn á ný. Á meðan ekki liggur fyrir hvers vegna hitahlífar falla af eldsneytisflaugum geimferjanna, eins og gerðist hjá Discovery 26. júlí og hjá Kólumbíu 2003, verða þær látnar halda kyrru fyrir. Þótt allir hefðu glaðst innilega yfir vel heppnaðri lendingu þá urðu fjölskyldur geimfaranna sem biðu á Flórída fyrir örlitlum vonbrigðum með að ferjan skyldi ekki lenda þar. Í dag verða hins vegar kærkomnir endurfundir ástvinanna í Houston, Texas. Sjálf geimferjan verður aftur á móti í viku í viðbót í Kaliforníu en síðan verður henni komið fyrir ofan á Boeing 747 flugvél sem flytur hana í heimahöfn á Canaveral-höfða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×