Erlent

Ákærðir fyrir morðtilraunir

Þrír fjögurra manna sem grunaðir eru um sprengjutilræðin í Lundúnum 21. júlí komu fyrir rétt í gær. Þeir eru meðal annars ákærðir fyrir morðtilraun gegn farþegum almenningssamgangna borgarinnar og eiga yfir höfði sér ævilangt fangelsi verði þeir sakfelldir. Mennirnir þrír verða áfram í haldi lögreglu þar til þeir mæta næst fyrir dóm 14. nóvember en þeir eru einnig ákærðir fyrir að hafa sprengiefni til umráða. Einn maður til viðbótar Manfu Kwaku Asiedu kom einnig fyrir rétt í gær en hann er talinn bera ábyrgð á sprengju í yfirgefnum bakpoka sem fannst í almenningsgarði í Lundúnum tveimur dögum eftir árásirnar. Hann var einnig ákærður fyrir morðtilraun og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. nóvember. Fjórði maðurinn, sem grunaður er um sprengjutilræðin, var handtekinn í Róm og er þar haldið föngnum. Framsals hans til Bretlands er beðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×