Erlent

Leitar að lífi á Mars

Í dag skýtur NASA á loft tveggja tonna könnunargeimfari sem setur stefnuna á Mars með það að markmiði að safna upplýsingum sem gefa vísbendingar um hvort líf hafi getað þrifist á plánetunni. Gert er ráð fyrir að ferjan nái til Mars um miðjan marsmánuð á næsta ári og fari þá á sporbaug í kringum plánetuna og safni þaðan upplýsingum sem gagnast þegar þjarkar verða sendir til plánetunnar á komandi árum. Nú þegar eru þrjú geimför á sporbaug um rauðu plánetuna. Mars er þurr og köld pláneta og þykkar íshellur eru á skautum hennar. Vísindamenn telja hins vegar að í fyrndinni hafi plánetan ef til vill verið rakari og jafnvel hlýrri og þar hafi getað þrifist líf. Geimferjan er búin einhverjum tæknilegustu verkfærum sem send hafa verið út í geim, þar á meðal smásjármyndavél sem getur tekið skýrari myndir en nokkurn tímann áður af yfirborði plánetunnar, í sex sinnum hærri upplausn en bestu myndavélar hingað til. Þá er um borð ratsjá sem hægt er að senda niður að yfirborði plánetunnar, þar sem hún getur borað sig niður í allt að 500 metra dýpi í íshelluna og safnað gögnum. Önnur tæki geta til dæmis rakið daglegar veðurbreytingar og auðkennt ýmsar steintegundir. Eftir að hafa aflað gagna mun ferjan aðallega þjóna sem fjarskiptamiðstöð fyrir aðrar geimflaugar sem verða send til Mars, en loftnet ferjunnar er afar öflugt og getur sent um tíu sinnum meira af gögnum á mínútu en önnur för hingað til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×