Erlent

Íranar skoða nýjar tillögur ESB

MYND/AP
Evrópusambandið hefur lagt fram nýjar tilllögur til þess að reyna að fá Írana til þess að leggja kjarnorkuáætlun sína á hilluna. Í tillögunum, sem hafa ekki verið gerðar opinberar, er réttur Írana til framleiðslu kjarnorku viðurkenndur og auknu samstarfi ESB og Írans á sviði efnahagsmála heitið ásamt því sem Rússar og ESB bjóðast til að útvega Írönum orku. Á móti vill ESB að að Íranar hætti auðgun úrans og annarri vinnu sem hugsanlega má nýta til smíði kjarnavopna. Íranar hafa í samningaviðræðum sínum við Frakka, Þjóðverja og Breta ítrekað að kjarnorkuáætlun þeirra snúist ekki um að koma sér upp kjarnvopnum en því hafa ríkin þrjú og Bandaríkin neitað að trúa. Hefur Evrópuþrenningin boðað til neyðarfundar innan Alþjóðakjarnorkueftirlitsins, stofnunar innan Sameinuðu þjóðanna, vegna málsins en þaðan er hugsanlegt að því verði vísað til Öryggisráðs SÞ. Aðalasamningamaður Írana sagði að þeir myndu fara yfir tillögur ESB í dag og á morgun og svara þeim á sunnudag. Talið er ólíklegt að Íranar fallist á þær en þeir segjast ætla að halda áfram auðgun úrans í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×