Erlent

Óttast súrefnisskort í kafbáti

Óttast er að áhöfn rússnesks kafbáts, sem situr fastur á hafsbotni 70 kílómetra úti fyrir Kyrrahafsströnd Rússlands, hafi einungis súrefni sem endist þeim í sólarhring. Björgunarskip eru á leið á slysstað. Sjö sjóliðar eru um borð í bátnum sem situr fastur á hafsbotni á um 200 metra dýpi. Neðansjávarmyndavél sýnir að skrúfa bátsins, sem er 13 metra langur, er föst í fiskineti og víra sem talið er að hafi náð að draga bátinn til botns. Rússnesk og japönsk skip eru á leið á slysstað þar sem reynt verður að ná mönnunum sjö úr bátnum án þess að vitað sé hvernig sú aðgerð eigi að fara fram, en báturinn er á það miklu dýpi að mennirnir geta ekki yfirgefið hann. Misvísandi upplýsingar hafa borist frá rússneskum yfirvöldum um það hversu mikið súrefni er í kafbátnum og hversu lengi það muni endast mönnunum. Allt frá einum sólarhring upp í nokkra daga hefur verið sagt. Yfirvöld segjast einnig hafa náð sambandi við kafbátinn og fengið þær upplýsingar að mennirnir séu allir heilir á húfi og hafi vistir sem endist þeim í fimm daga. Aðstæður þykja minna óþægilega mikið á slysið sem varð á Barentshafi fyrir fimm árum þegar rússneski kafbáturinn Kursk strandaði. Þá létust 118 sjóliðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×