Erlent

Sænskt morðmál til lykta leitt

Eitt óhugnanlegasta morðmál Svíþjóðar á síðari árum virðist nú hafa verið til lykta leitt. Um er að ræða tvö morð sem framin voru á Skáni í Suður-Svíþjóð árið 1989. Þá var hinni tíu ára gömlu Helén Nilsson rænt og nauðgað á hrottafenginn hátt áður en hún var myrt með barsmíðum. Seinna sama ár var svo hin 26 ára Jannica Ekblad frá Malmö myrt eftir svipaðar aðfarir. Morðin vörpuðu skugga á smábæinn Hörby, heimabæ Helén, í fimmtán ár áður en lögregla komst á spor morðingjans. Ulf Olsson, maðurinn sem nú hefur verið dæmdur fyrir morðin, fór þá að gefa ýmislegt grunsamlegt í skyn við vinnufélaga sína og kunningja sem bentu lögreglunni á hann. Niðurstöður DNA-rannsókna þóttu síðan sanna að hann hefði myrt bæði Helén og Jannicu. Í undirrétti var Olsson dæmdur í lífstíðarfangelsi þrátt fyrir samdóma álit tveggja geðlækna um að hann væri ósakhæfur. Þeim dómi var svo snúið við í hæstarétti í gær þegar hann var dæmdur til vistar á réttargeðdeild. Dómurinn hefur vakið nokkra reiði þar sem Olsson útskrifast af deildinni þegar læknar telja hann hafa náð fullum bata af geðsjúkdómnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×