Erlent

Uppreisnarmenn skotnir til bana

Sex íslamskir uppreisnarmenn týndu lífi í umsátri eftir að hafa ráðist inn í hindúamusteri á Norður-Indlandi í gær . Einn þeirra beið bana þegar hann sprengdi sig í loft upp til að rjúfa stálhlið sem lokaði musterið af. Hinir fimm réðust þá til inngöngu og voru komnir í um fimmtíu metra fjarlægð frá helgasta dómi musterisins þegar öryggisverðir skutu þá til bana. Langvinnar deilur hafa staðið um musterið sem er í borginni Ayodhya í Uttar Pradesh héraðinu. Árið 1992 sprengdu hindúar upp mosku frá 16. öld og hrintu þannig af stað ofbeldisfullum trúardeilum í borginni sem hafa skilið tvö þúsund manns eftir liggjandi í valnum. Hindúaleiðtogar vilja meina að moskan hafi verið reist á rústum helgs hindúamusteris og að þetta sé fæðingarstaður Rams, eins heilagasta guðs hindúa. Múslimar segja hins vegar að engin sönnun sé fyrir þessu. Deilan er enn fyrir indverskum dómstólum. Þrír öryggisverðir særðust í árásinni en enginn lést úr þeirra röðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×