Erlent

Sendiherrar múslimaríkja skotmörk

Uppreisnarmenn í Írak hafa fundið sér ný skotmörk í baráttu sinni, erindreka annarra múslimaríkja sem starfa í landinu. Þeir hyggjast þar með fæla trúbræður sína frá því að mynda tengsl við ríkisstjórn Íraks sem starfar í skjóli bandarískrar herverndar. Í gærmorgun særðist Hassan Malalah al-Ansari, fulltrúi ríkisstjórnar Barein í Írak, þegar skotið var á hann á leið til vinnu í Bagdad. Síðar um daginn varð Mohammed Younis Khan, sendiherra Pakistan í Bagdad, fyrir skotárás nokkurra byssumanna en hann slapp ómeiddur. Stjórnvöld í Islamabad hafa þegar kallað Khan heim. Skemmst er að minnast ránsins á Ihab al-Sherif, sendiherra Egyptalands, á sunnudag. Ekkert hefur til hans spurst síðan þá. "Markmiðið er skýrt, að skapa ótta," sagði formælandi Íraksstjórnar á blaðamannafundi í gær. Hann bætti því við að markmið árásanna væri að hrekja aðrar erlendar sendinefndir frá landinu. Barein er dyggur bandamaður Bandaríkjanna en á eynni hefur 5. flotinn höfuðstöðvar sínar. Pakistönsk stjórnvöld hafa stutt Bandaríkjamenn í stríðinu gegn hryðjuverkum en voru lítt hrifin af innrásinni í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×