Erlent

Ögrandi ummæli Chirac um Breta

Matarslagur geisar milli Breta og Frakka vegna niðrandi ummæla Jacques Chiracs Frakklandsforseta um breska matarhefð. Breskir matgæðingar svara fullum hálsi. Kúariða er eina framlag Breta til evrópsks landbúnaðar sagði forseti Frakklands og kastaði þeirri spurningu fram hvernig hægt sé að treysta þjóð sem byggi til jafn vondan mat. Næst á eftir Finnum væri breskur matur sá versti í heimi bætti hann við og uppskar hlátur frá viðstöddum, þeim Vladimir Putín Rússlandsforseta og Gerhard Schroeder, kanslara Þýskalands. Því fer fjarri að öllum hafi verið skemmt yfir ummælunum en Bretar og Frakkar eru einmitt meðal þeirra þjóða sem keppast um að fá að halda ólympíuleikana árið 2012.   Líkt og búast mátti við sitja Bretar ekki þegjandi undir skotum Chiracs. Einn helsti matargagnrýnandi í Bretlandi, Egon Ronay, sagði að maður líkt og Chirac, sem væri fullur ólundar, væri ekki hæfur til að tjá sig um mat. Í sama streng tók breski sjónvarpskokkurinn Brian Turner, og sagði ummælin sýna hversu áhyggjufullir Frakkar væru vegna barátunnar um ólympíuleikanna fyrst Chirac þurfi að leggjast svo lágt. Þá er haft eftir forstjóra breskra kjötframleiðanda að á sama tíma og bresk matarhefð njóti virðingar um víða veröld lifi aðrar þjóðir á fornri frægð.  Á morgun tekur Alþjóða ólympíunefndin ákvörðun um það hvar leikarnir verða haldnir. Ómögulegt er að segja til um hvort ummæli Frakklandsforseta um breskan mat hafi áhrif á þá ákvarðanatöku.  Í nefndinni eru reyndar tveir fulltrúar frá þeirri þjóð sem Chirac sagði eiga versta mat í heimi, -Finnlandi.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×