Erlent

Vel heppnaður árekstur

Árekstur lítils geimfars við halastjörnu á stærð við Manhattan-eyju í morgun gæti veitt vísbendingar um upphaf lífs á Jörðinni. Geimfarið var á stærð við þvottavél og vó ekki nema þrjú hundruð og sjötíu kíló. Þegar það hitti beint í miðju halastjörnunnar Tempe 1 varð mikil sprenging. Ískurl og önnur efni sem mynduðust fyrir milljörðum ára þeyttust í allar áttir - efni, sem verið höfðu í kjarna halastjörnunnar frá því um það leyti sem sólkerfið myndaðist. Sprengingin varð meiri en vísindamenn höfðu búist við. Áreksturinn varð á svo miklum hraða að á honum tæki aðeins sex mínútur að ferðast á milli austur- og vesturstranda Bandaríkjanna. Móðurskip árekstursfarsins, Deep Impact, var í fimm hundruð kílómetra fjarlægð og safnaði þar upplýsingum sem nú er verið að senda til jarðar.   Halastjörnur samanstanda af gasi, ryki og ís frá öllum hornum sólkerfisins, og því standa vonir til að nýjar upplýsingar um sólkerfið og uppruna lífs á jörðinni komi fram í kjölfar sprengingarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×