Erlent

Hverju á Live8 átakið að skila?

Hverju á Live8 átakið að skila? Í þorpinu Shinyanga í Tansaníu má finna gott dæmi um það. Helmingur allra skulda Tansaníu var felldur niður fyrir þremur árum. Í kjölfarið voru skólagjöld í grunnskólum afnumin og síðan þá hefur fjöldi grunnskólanema allt að því þrefaldast. Auðvitað vantar enn ýmislegt, betri borð og fleiri bækur, en þetta dæmi sýnir að ef ríkisstjórnin sem fær stuðninginn nýtir hann til að byggja upp, er hægt að ná árangri. Moses N. Mahulu, yfirkennari í Shinyanga, segir að börnin vilja læra í betri húsum sem verið sé að byggja. Og hann segir þau læra betur. Eftir skuldaniðurfellinguna hefur líka ýmislegt batnað í heilbrigðsikerfinu, um það eru læknar og hjúkrunarfræðingar sammála, en þó verður ekki fram hjá því horft að milljónir íbúa landsins hafa enn ekki aðgang að grundvallarheilbrigðisþjónustu. Mun meiri stuðning vantar frá hinu opinbera til að halda heilsugæslustöðvum opnum og til að þjálfa starfsfólk. Iðnríkin hafa deilt um ágæti þess að fella niður skuldir síðan árið 1996 en Tansaníu var gefinn þessi möguleiki einfaldlega vegna þess að forsetinn, Benjamin Mkapa er álitinn heiðarlegur maður og hann hefur staðið undir væntingum alþjóðastofnana sem hafa lánað landinu fé. Mkapa var enda kosinn á þeim forsendum að hann ætlaði að berjast gegn spillingu og auka hagvöxt - það hefur hann gert og það virðist vera lykillinn að peningakistum Vesturlanda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×