Erlent

Gengið gegn fátækt

Rúmlega hundrað þúsund manns mynduðu keðju utan um Edinborg í gær og kröfðust þess að valdamestu þjóðir heims aðstoðuðu ríki Afríku til að losna undan oki fátæktar. Myndaði keðjan hvítan hring, sem er merki alþjóðlegrar baráttu gegn fátækt. Þetta var upphaf vikulangra mótmæla, látum fátækt heyra sögunni til, vegna fundar átta helstu iðnríkja heims, G8 ríkja, í Skotlandi sem hefst um næstu helgi. Bob Geldof hefur sagt að hann vonist til að um milljón mótmælendur umkringi Edinborg á meðan fundurinn fer fram. Skipuleggjendur segja að um 200.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum, en AP fréttastofan hefur eftir lögreglunni í Edinborg að mótmælendur hafi verið um 120.000. "Við erum íbúar alþjóðlegs þorps. Við þurfum á hjálp að halda," sagði Siphiwe Hlophe, sem ferðaðist frá Svasílandi í Afríku til að taka þátt í keðjunni. "Leiðtogar G8 ríkjanna verða að standa við loforð sín." Mótmælagangan fór mjög friðsamlega fram. Göngumenn blésu í flautur og báru borða og blöðrur þar sem hvatt var til þess að auka þróunarhjálp verulega, fella niður skuldir fátækustu þjóða heims og opna fyrir viðskipti við fátækari lönd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×