Erlent

Milljónir fylgdust með

Í gær tóku þjóðir um allan heim höndum saman og héldu tónleika í níu borgum til að vekja athygli á neyð þróunarlandanna og safna pening þeim til styrktar. Tónleikarnir hófust í Tokýó, en einnig voru haldnir tónleikar í London, París, Róm, Moskvu, Fíladelfíu, Berlín, Barrie í Kanada og í Jóhannesarborg. Björk kom fram á tónleikum í Tokýó þar sem tíu þúsund manns voru saman komnir. Höllin sem tónleikarnir fóru fram í rúmar þó tvöfalt meiri fjölda en það. Björk talaði til fjöldans og sagði meðal annars: "Það að átta sig á því að vandamálið er til staðar er mjög mikilvægt skref". Tónleikagestir í London fengu mikið fyrir sinn snúð en U2 og Paul McCartney voru fyrstir á svið og sungu þeir saman sérstaka útgáfu af laginu Sgt. Pepper's Lonely Heart Club Band en rúmlega tvö hundruð þúsund manns mættu á tónleikana. "Ég trúi að viðburður eins og þessi geti virkilega skipt sköpum. Þessi kynslóð með sinni rödd, sínum atkvæðum, sínum dugnaði, getur virkilega útrýmt fátækt," sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á tónleikunum í London. Skipuleggjendur áætla að um tvær milljónir manna hafi sótt tónleikana um allan heim og að um það bil 85 prósent mannkyns hafi aðgang að þeim í sjónvarpi, útvarpi eða interneti. Bob Geldof lét þau orð falla þegar þrír tímar voru liðnir af tónleikunum að þrír milljarðar manna um allan heim væru að fylgjast með.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×