Erlent

Máli 98 ára konu frestað til 2010

MYND/Gunnar
Máli Amaliu Cuccioletti fyrir ítölskum dómstóli hefur verið frestað. Það væri líklega ekki í frásögur færandi ef málinu hefði ekki verið frestað til ársins 2010, auk þess sem Amalia er 98 ára gömul. Mál hinnar öldnu ítölsku konu snýst um eignarrétt og hófst fyrir átta árum þegar hún stefndi nokkrum ættingja sinna. Það var svo ekki fyrr en fjórum síðar, eða árið 2001, sem dómstólar í bænum Macerata, þar sem Amalia býr, tók málið fyrst fyrir. Ítalskir fjölmiðlar greindu svo frá því í dag að málinu hafi nú verið frestað til 25. mars 2010 klukkan 9.30 að staðartíma. Tilraunir lögmanns frúarinnar til að fá málinu flýtt hafa engan árangur borið og hann sagði eftir nýjustu frestunina að telja mætti litlar líkur á því að skjólstæðingur sinn nái að fylgjast með lyktum málsins. Ítalskir dómstólar eru þekktir fyrir að vera afar svifaseinir og tekur rúmlega 3000 daga að meðaltali, eða hátt í áratug, að fá niðurstöðu í einkamálum þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×