Erlent

Danir njósnuðu lítið

Ríkisstjórnum austantjaldsríkjanna tókst ekki að fá háttsetta danska embættismenn til að njósna fyrir sig á tímum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var á fimmtudag. Út er komin skýrsla Dönsku rannsóknarstofnunarinnar í alþjóðarannsóknum (DIIS) um öryggismál í Danmörku á tímum kalda stríðsins. Þar kemur fram að á árunum 1972-88 voru 26 Danir á mála hjá austur-þýsku leyniþjónustunni Stasi en enginn þeirra er talinn hafa haft aðgang að upplýsingum sem snertu öryggi ríkissins. Leyniþjónustur Sovétmanna og leppríkja þeirra eru sagðar hafa gert ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að fá háttsetta danska embættismenn til liðs við sig, bæði úr stjórnsýslunni og úr hernum. "Engir danskir ofurnjósnarar voru til á tímum kalda stríðsins, eins og þekktist til dæmis í Vestur-Þýskalandi," sagði Svend Aage Christiansen, aðalhöfundur skýrslunnar, í viðtali við Berlingske Tidende.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×