Erlent

Neyðarástand á Ítalíu

"Því er spáð að hitinn geti farið upp í 40 til 45 stig í heitustu borgunum. Það er neyðarástand í landinu, tíu manns hafa þegar látist, en á sunnudaginn lést sextugur Þjóðverji á ströndinni hér í bænum," segir Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir fararstjóri fyrir Úrval- Útsýn á Lido di Jesolo rétt hjá Feneyjum. Á Ítalíu er heitast í Mílanó, Flórens, Róm, Bologna og Brescia þar sem hitastig hefur verið um 35 gráður. Ástandið er verst í stórborgum norður Ítalíu vegna mengunar og gamalla húsa þar sem ekki er loftkæling en Jóhanna Guðrún segir að hitinn angri ferðamenn við ströndina ekki eins mikið. "Við erum að horfast í augu við hitabylgju sem er jafnstór ef ekki stærri en sú sem skall á 2003 og um það bil ein milljón manna eru í hættu," sagði Francesco Storace heilbrigðismálaráðherra Ítalíu við Reuters fréttastofuna. Árið 2003 létust 20.000 manns vegna hitans, flest eldra fólk. Yfirvöld á Ítalíu hafa beðið lækna um að fylgjast vel með öldruðum sjúklingum sínum sem eru í mestri hættu. Á mánudag var nýtt met slegið í rafmagnsnotkun á Ítalíu vegna mikillar notkunar loftkælikerfa. Á norður Ítalíu valda miklir þurrkar vandræðum og óttast menn uppskerubrest. Sunnarlega á Spáni hefur hitastig sums staðar farið upp í 40 gráður og verstu þurrkar í 60 ár hrjá landið. "Hér er vel heitt en það er ekki hægt að tala um hitabylgju enn þá," segir Kristinn R. Ólafsson sem búsettur er í Madríd en hitinn þar er í 30 gráðum. "Vandinn er mikill á suðaustur Spáni, Alicante og þar um kring, þar sjá menn fram á vandræði vegna þurrka," segir hann. Heilbrigðisráðherra Frakklands, Xavier Bertrand, hefur komið af stað neyðaráætlun vegna hugsanlegrar hitabylgju í Frakklandi sem felst í því að fylgjast með um 100.000 manns sem taldir eru viðkvæmir fyrir hita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×