Erlent

Sjóorustan við Trafalgar

Bretar halda upp á það í dag að í ár eru tvö hundruð ár liðin frá sjóorrustunni við Trafalgar, sem markaði upphafið að endalokum hins mikla veldis Napóleons Bónaparte. Margir eru þó óánægðir með framkvæmd hátíðahaldanna. Þeir sem hafa farið til Lundúna hafa sjálfsagt flestir komið við á Trafalgartorgi þar sem Nelson flotaforingi gnæfir yfir lýðinn á súlu. Nelson leiddi breska flotann í orrustunni við sameinaðan flota Frakka og Spánverja, 21. október 1805, undan Trafalgarhöfða á Spánarströnd. Engu skipti þótt hann hefði þegar misst handlegg og auga í fyrri bardögum, hann stýrði mönnum sínum til sigurs. Frönsk leyniskytta hæfði hann þó í bardaganum og lét hann lífið þar, 47 ára gamall. Barnabarnabarnabarnabarn Nelsons, Anna Tribe sem er sjötíu og fimm ára gömul, er mjög hneyksluð á því hvernig á að halda upp á daginn. Það á að setja á svið glæsilega nítjándu aldar sjóorrustu, en í stað þess að þjóðirnar eigist við, verða það rauða og bláa liðið. Þetta finnst henni of mikil varkárni og viðkvæmni og telur víst að Spánverjar og Frakkar séu alveg nógu fullorðnir til að horfast í augu við það að Bretar unnu orrustuna á sínum tíma. Það hafi ekkert breyst. Alex Naylor, sá sem leikur Nelson í orrustunni tekur undir með Önnu og segir Nelson hafa talið stjórnmálamenn huglausar lyddur og hann hallist að því að gamli maðurinn hafi haft rétt fyrir sér. Skipuleggjendur hátíðahaldanna vildu forðast allan þjóðrembing og sigurgleði, einmitt nú þegar Bretar og Frakkar deila hart um framtíð Evrópusambandsins. 160 skip úr 35 flotum taka þátt í hátíðahöldunum, svo hvort sem það eru rauða og bláa liðið eða Bretar gegn Frökkum og Spánverjum, þá verður orrustan sjálfsagt mikið sjónarspil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×