Innlent

Framtíðin ekki endilega á Hlemmi

Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri rekstar- og þjónustusviðs lögreglunnar í Reykjavík, varpaði fram þeirri hugmynd á fundi um skipulagsmál við Hlemm í vikunni að lögreglustöðin gæti vel flutt sig um set ef þurfa þætti. "Ég sló þessu fram á fundinum Hlemmur plús fyrir skemmstu. Enda getum við verið hvar sem er, til dæmis í nýrri stórbyggingu sem reisa á við Borgartún." Lögreglustöðin við Hlemm er áberandi bygging. Hærri hluti hennar er fimm hæðir og samanlagt er starfsemi lögreglunnar á sjö þúsund fermetrum. Starfsmenn í byggingunni eru um þrjú hundruð þegar mest lætur en að jafnaði eru þar að störfum á þriðja hundrað manns dag hvern. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að á reit lögreglustöðvarinnar megi hæglega koma fyrir 20 þúsund fermetra húsnæði ásamt bílastæðum. "Þetta er athyglisverð hugmynd hjá Sólmundi. Við teljum heppilegt að lögreglan sé miðsvæðis í borginni og viljum vinna með henni að góðum hugmyndum. Vel má vera að önnur staðsetning henti starfsemi hennar betur. Við erum opin fyrir öllu," segir Dagur. Á áðurgreindum fundi nefndi Sólmundur hugmyndir um að rífa lögreglustöðina og byggja til dæmis verslunarhúsnæði eða fjölbýlishús á lóðinni. "Húsnæði lögreglunnar er það stórt og lóðin einnig að vandræðalítið ætti að vera að byggja þar eitt eða fleiri hús sem samanlagt yrðu mun stærri í fermetrum talið en lögreglustöðin. Á bílastæðum embættisins, sem snúa að Skúlagötu og Rauðarárstíg, væri hæglega hægt að byggja nokkur þúsund fermetra hús án þess að hrófla við núverandi byggingum," sagði Sólmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×