Erlent

Hvalkjöt vinsælt í S-Kóreu

Hvalkjöt nýtur vaxandi vinsælda í Suður-Kóreu og þar fer fundur hvalveiðiráðsins fram á næstunni. Náttúruverndarsinnar segja hvalinn aldrei hafa verið í meiri hættu. Það styttist í ársfund Alþjóða hvalveiðiráðsins í Ulsan í Suður-Kóreu. Á sama tíma berast af því fregnir að vinsældir hvalkjöts vaxi þar hratt. Hvalasteik fæst á fiskmarkaði bæjarins en veiðimenn segja þær af hvölum sem lenda í netum fiskveiðimanna. Náttúruverndarsinnar eru þó ekki vissir um að það sé rétt og benda á að í bænum standi til að koma á fót hvalstöð. Jim Wickens grænfriðungur segir að ef heimilt verði að byggja hvalstöðina séu það skýr skilaboð þess efnis að Kóreustjórn styðji ólöglegar veiðar dýrategunda í útrýmingarhættu. „Það er jafnfáránlegt að byggja þessa hvalstöð og að byggja stöð sem vinnur fílabein úr fílum sem hafa verið drepnir fyrir slysni á sléttum Kenía,“ segir Wickens. Hvalavinir segja meiri ógn stafa að hvölum en nokkru sinni fyrr: Mengun valdi því að eiturefni safnist fyrir í þeim, hljóðmengun valdi streitu og jafnvel því að hvali rekur á land. Hitabreytingar hafi og áhrif á svif sem margir hvalir nærast á. Þessi kóreski eigandi hvalaveitingastaðar er á því að hugleiða eigi hvalveiðar en rétt sé að fara með gát.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×