Erlent

Hús gyðinga verða rifin

Ísraelar og Palestínumenn hafa samið um að landtökubyggðir gyðinga á Gaza-svæðinu verði fjarlægðar þegar Ísraelar draga herlið sitt til baka nú í sumar. Um 1.200 heimili gyðinga verða rifin og í stað þeirra á að rísa heimili fyrir eitthvað af þeim 1.3 milljónum Palestínumanna sem búa á Gaza-svæðinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Jerúsalem í gær eftir tveggja daga fund hennar með leiðtogum Ísraela og Palestínumanna, en þar til nú hefur verið óljóst hvað verður um heimili gyðinga á svæðinu eftir að þeir verða fluttir á brott. Í síðustu viku sagði Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, að það væri ónauðsynlegt að eyðileggja heimili landtökumanna og að það myndi hætta lífi hermanna. Rice sagði leiðtoga beggja aðila sannfærða um nauðsyn þess að hvarf ísraelska hersins, frá Gaza og fjórum landtökubyggðum á Vesturbakkanum, færi fram með friðsælum hætti. Yfirvöld í Ísrael og heimastjórn Palestínu þyrftu því að vinna saman til að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti það gæti orðið. Einnig munu Ísraelar og Palestínumenn vinna að samningi um hvernig hægt sé að tryggja frjálst flæði fólks og viðskipta um svæðið eftir að herinn dregur sig til baka. Rice sagði þetta nauðsynlegt til að byggja um efnahag á svæðinu. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna, sem á sæti í utanríkismálanefnd Alþingis, segir þessa ákvörðun jákvæða fyrir friðarferlið. "Mér hefði ekki fundist neitt að því að Palestínumenn hefðu fengið þetta húsnæði, ekki veitir af. En það er meira atriði hvernig þetta leggst pólitískt, en verðmætin sem fara. Þetta skref er í áttina að því að menn hafi trú á því að það sé alvara á bak við friðarferlið hjá Ísraelum, en það er langur vegur framundan áður en ég þori að trúa því að þarna komist á varanlegur friður og eðlileg samskipti á milli aðila."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×