Erlent

Danir mega nota íslensku aðferðina

MYND/Vísir
Á þjóðhátíðardegi Íslendinga hafa danskir þingmenn samþykkt ný nafnalög sem fela meðal annars í sér endurvakningu föðurnafna að íslenskri hefð. Danmörk er eitt fárra vestrænna ríkja, ásamt Íslandi, sem hefur svokallaða mannanafnanefnd þangað sem þarf að sækja um leyfi fyrir nöfnum sem eru ekki viðurkennd af yfirvöldum. Að hreyfa við dönsku nafnalögunum hefur hreyft við mörgum, sérstaklega fólki sem vill verja ættarnöfn sín. Upphafleg útgáfa frumvarpsins fól í sér að eftirnöfn sem fleiri en eitt þúsund einstaklingar bera yrðu til frjálsra afnota. Tuttugu þúsund undirskriftir, meðal annars frá Stoltenberg-ættinni, urðu til þess að ráðherra fjölskyldu- og neytendamála, flutningsmaður frumvarpsins, hækkaði töluna í 2.000. Breytingin þýðir að einungis 160 eftirnöfn verða gefin frjáls í stað 350, hefði upphaflega útgáfa frumvarpsins gengið í gegn. Annars er hugsunin sú að aðlaga dönsku nafnalögin betur að nútímanum, t.d. með því að gera þau líkari því sem þekkist í öðrum norrænum ríkjum. Ein af helstu breytingunum er endurupptaka gamallar norrænnar hefðar sem Íslendingar hafa haldið við í gegnum árin, að leyfa að börn sé kennd við föður eða móður eins og „Jónsson“ eða „Helgudóttir“. Það kemur til með að einfalda málin fyrir Íslendinga í Danmörku sem í dag þurfa að sækja um undanþágu fyrir að skíra börn sín, eða fá þau skráð í danska kerfið, með þess háttar eftirnöfnum. Aðrar helstu breytingar í frumvarpi til nýrra danskra nafnalaga eru að réttur þeirra sem eru giftir og ógiftir verður jafnaður. Þannig getur fólk í óvígðri sambúð tekið upp eftirnafn hvors annars. Kostnaður við að skipta um eftirnafn verður felldur niður sem í dag nemur þrjátíu þúsund íslenskum krónum. Hægt verður að breyta millinafni í eftirnafn og leyfilegt verður að nota nafn frá gagnstæðu kyni sem eftirnafn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×