Sport

Gerum mistök eins og leikmenn

Hjörtur Hjartarson, framherji Skagamanna, gagnrýndi Gylfa Orrason knattspyrnudómara harðlega eftir leik sem hann dæmdi gegn Keflvíkingum í fyrrakvöld og gaf í skyn að Gylfi væri ekki í líkamlegu formi til þess að dæma leik í Landsbankadeildinni. „Þessi ummæli Hjartar koma mér nú nokkuð á óvart, því ég hef alltaf talið hann prúðan pilt,“ sagði Gylfi undrandi. Gylfi fékk slökustu einkunn sem gefin hefur verið í sumar fyrir dómgæsluna í leik ÍA og Keflavíkur. „Ég get alveg viðurkennt að ég gerði mistök í leiknum, þegar Hjörtur sleppur í gegn. Þá hefði ég átt að beita hagnaðarreglunni í stað þess að grípa inn í leikinn vegna brots, enda viðurkenndi ég það strax. Það er nú einu sinni þannig að dómarar gera mistök eins og leikmenn. En Skagamenn gengu mjög langt í mótmælum sínum í leiknum og ég tel mig hafa sýnt þeim mikið umburðarlyndi.“ Gylfi sagðist líka alveg geta hugsað sér að vera í betra formi. „Menn vita af því að ég fór í augnaðgerð í vor og gat ekki hreyft mig í heilan mánuð. Það kom að sjálfsögðu niður á forminu, en ég hef staðist þær kröfur sem gerðar eru og tel mig geta dæmt leiki í Landsbankadeildinni, annars myndi ég ekki gera það.“ Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði Skagamanna, tók undir það með Hirti að Gylfi hafi ekki virkað í góðu líkamlegu formi. „Þetta var fyrsti leikur Gylfa eftir svolítið hlé, og því kannski eðlilegt að hann sé ekki í sínu besta formi. En mér fannst það sjást á þessum leik að hann var að dæma í fyrsta skipti í svolítið langan tíma. Dómarar geta alveg dottið úr formi eins og leikmenn.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×