Innlent

Fé í uppbyggingu smáfyrirtækja

Samherji hefur ákveðið að leggja 20 milljónir í uppbyggingu smærri fyrirtækja á Stöðvarfirði. Er það liður í atvinnuþróunarverkefni sem félagið hefur unnið að ásamt Austurbyggð og Þróunarstofu Austurlands í kjölfar þess að Samherji ákvað að hætta landvinnslu á Stöðvarfirði í haust. Helstu niðurstöður verkefnisins voru kynntar á fundi á Stöðvarfirði í gær og segir í frétt á heimasíðu Samherja að hugmyndin sé að leggja fram eina til þrjár milljónir í formi hlutafjár í rekstur smærri fyrirtækja sem gætu skapað nokkur störf á staðnum. Auk þess er Samherji tilbúinn að leggja fram húsnæði sitt og aðstöðu á staðnum ef þess gerist þörf. Þá hefur Samherji gengið frá samningi við Rekstrarráðgjöf Norðurlands um að fyrirtækið aðstoði Stöðfirðinga við mat og gerð rekstraráætlana vegna þeirra viðskiptahugmynda sem upp kunna að koma. Samherji mun einnig vera tilbúinn að leggja til umtalsvert fé svo hægt verði að tryggja almenningssamgöngur á svæðin og þá hefur félagið einnig átt í viðræðum við Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði um samstarf og hefur 10 starfsmönnum Samherja sem unnu á Stöðvarfirði verið boðin vinna hjá Loðnuvinnslunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×