Sport

Við erum búnir að slíðra sverðin

Ágreiningur Óla Stefáns Flóventssonar, leikmanns Grindavíkur, og Milans Stefáns Jankovic, þjálfara Grindavíkur, hefur verið jafnaður og Óli Stefán mun því leika með félaginu í sumar en hann hætti skyndilega um síðustu helgi. „Ég átti fínan fund með Grindvíkingum á þriðjudagskvöldið og við Janko vorum báðir sammála um að leggja ágreining okkar til hliðar og erum því búnir að slíðra sverðin ef svo má segja. Við mættumst á miðri leið og gáfum báðir eftir. Ég var nokkuð sáttur eftir fundinn,“ sagði Óli Stefán. Lengi vel var fátt sem benti til þess að Óli Stefán og Milan myndu ná sáttum enda var Óli verulega óánægður með þjálfarann og framkomu hans gagnvart honum. „Við Milan erum báðir miklir „prinsippmenn“ og við vorum ósáttir við hluti í fari hvors annars. Við ræddum þetta bara eins og menn og þurftum báðir að éta ýmislegt ofan í okkur. Það er veruleg ánægjulegt að þetta mál sé útkljáð því mér er búið að líða ömurlega yfir þessu.“ Þó sáttafundurinn hafi gengið vel vildi Óli ekki ganga svo langt að segja að menn hefðu fallist í faðma að loknum fundinum. „Ég læt það nú vera,“ sagði Óli og hló létt. „Ég mæti á æfingu í kvöld (gærkvöld) og reyni að koma mér fyrst í hópinn og svo vonandi í liðið. Ég er alveg maður í að vinna mitt sæti í liðinu aftur og það er næst á dagskrá hjá mér. Við Janko byrjum núna með hreint borð og ég verð með Grindavík út þetta tímabil. Það er alveg á hreinu,“ sagði Grindvíkingurinn Óli Stefán Flóventsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×