Sport

Ráða Gummi eða Tryggvi úrslitum?

Knattspyrnuþjálfararnir Bjarni Jóhannsson, sem nú þjálfar karlalið Breiðabliks, og Njáll Eiðsson eiga von á háspennuleik í kvöld þegar Valur tekur á móti FH að Hlíðarenda. Bjarni á von á hörkuleik.  „Þetta verður einn af úrslitaleikjum þessa móts. FH hafa staðið fyllilega undir væntingum á meðan Valsmenn hafa komið svolítið á óvart, og liðin eru að mínu mati mjög jöfn. Bæði liðin eru sterk í vörn og sókn, það eru lítill getumunur á liðunum.“ Bjarni segir framlag Guðmundar Benediktssonar og Tryggva Guðmundssonar geta skipt sköpum í leiknum. „Þetta eru leikmenn sem geta gert óvænta hluti. Þeir eru báðir heitir núna og því geta úrslitin alveg eins ráðist á þeirra leik.“ Njáll Eiðsson, fyrrum þjálfari Vals, á von á jafnteflisleik. „Þetta er athyglisverður leikur. Magnaður árangur hjá báðum liðum að vinna fimm fyrstu leiki sína þetta sannfærandi. Liðin eru með ólíkt leikskipulag en eru þó með sterka leikmenn í öllum stöðum. Ég hugsa að þetta endi með jafntefli, en vonandi fá áhorfendur markaleik. Leikurinn hefst klukkan 20.00 en fyrr um daginn er hátið á Hlíðarenda þar sem Valsmenn kveðja gamla íþróttahúsið sitt og taka um leið fyrstu skóflustunguna að nýja íþrótthúsinu sem er að fara í byggingu á Hlíðarenda. Valsmenn hafa sett upp sérstakan fjölskyldudag þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Það má því búast við fjölmenni á Hlíðarenda í kvöld enda er komin langur tími síðan að Valsmenn fengu toppslag á sínum heimavelli en þeir unnu íslandsmeistaratitilinn síðast 1987 eða fyrir 18 árum síðan. Þeir sem komast ekki á völlinn geta horfa á leikinn á sjónvarpstöðinni Sýn sem sýnir hann beint.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×