Erlent

Vilja viðhalda barnakvóta

Stjórnvöld í Kína vilja enn viðhalda þeirri umdeildu reglu að hjón eignist aðeins eitt barn, enda hafi það sýnt sig síðustu áratugi að hún skili góðum árangri. Forstjóri nefndar sem fer með fjölskyldumál í landinu, Pan Giiyu, heldur því fram að ef stjórnvöld hefðu ekki gripið til þess í upphafi sjöunda áratugar að setja þá kvöð á hjón að þau eignist aðeins eitt barn þá væru Kínverjar nú 300 milljónum fleiri. Þó megi ekki slaka á klónni því ör fólksfjölgun í Kína sé enn alvarlegt vandamál. Kínverjar eru nú 1,2 milljarðar. Reglan hefur haft hræðilegar afleiðingar fyrir stúlkubörn. Samkvæmt kínverski hefð eru stúlkur lægst settar innan fjölskyldu því þær eru ekki taldar geta alið önn fyrir foreldrum sínum þegar þeir komast á eldri ár. Því vilja hjón eignast dreng. Nýfædd stúlkubörn eru oft og tíðum yfirgefin eða fólk grípur til þess ráðs að eyða fóstrinu ef um stúlkubarn er að ræða. Óheimilt er að eyða fóstri vegna kynferðis þess en sónarskoðun gerir það að verkum að mun auðveldara er að komast að því hvort fóstrið er drengur eða stúlka. Fyrir hverja 119 drengi sem fæðast í Kína fæðast 100 stúlkur. Á nokkrum stöðum í Kína hefur reglan um aðeins eitt barn vikið, til dæmis í Shanghæ þar sem engar athugasemdir eru gerðar þótt fólk eignist tvö börn. Á landsbyggðinni er bændum þó umbunað fjárhagslega ef þeir halda sig við þá reglu að eignast aðeins eitt barn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×