Erlent

Norðmenn hugsa sinn gang

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi draga verulega úr líkunum á að Norðmenn hugi að Evrópusambandsaðild á næstu árum, að mati Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs. Stuðningur við aðild að ESB hefur ekki verið minni í Noregi í tæp fjögur ár. "Ég tel að Norðmenn eigi ekki að flana að neinu á meðan staða Evrópusambandsins er jafn óljós og nú er," sagði Bondevik í samtali við NTB-fréttastofuna í gær. Bondevik hefur áður sagst búast við að þjóðin muni greiða atkvæði um aðild eigi síðar en 2009 en nú hafa forsendurnar gerbreyst að hans mati. Aslaug Haga, leiðtogi Miðflokksins sem er mjög andvígur ESB-aðild, fagnaði úrslitunum og sagði þau byr í seglin fyrir efasemdarmenn um ESB hvarvetna. Jens Stoltenberg, formaður Verkamannaflokksins, ítrekaði hins vegar að lyktir frönsku atkvæðagreiðslunnar þýddu ekki að staða ESB hefði veikst, en flokkurinn er því fylgjandi að Noregur gangi í ESB. Ný skoðanakönnun Sentios-fyrirtækisins bendir til að stuðningur Norðmanna við aðild að sambandinu hafi ekki verið minni í tæp fjögur ár. 40,8 prósent fólks segjast styðja aðild og 44,5 prósent eru því andvíg en 14,7 prósent eru óákveðin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×