Innlent

Friðargæslumenn tryggðir

Tryggingastofnun ríkisins sem áður hafði synjað friðargæsluliðunum þremur sem slösuðust í sprengjuárás í Kabúl síðasta haust um bætur hefur nú breytt afstöðu sinni og samþykkir nú að um bótaskylt slys hafi verið að ræða. Að sögn Karls Steinars Guðnasonar forstjóra Tryggingastofnunar er þessi ákvörðun byggð á nýjum upplýsingum sem stofnuninni bárust frá utanríkisráðuneytinu. Davíð Oddsson utanríkisráðherra gagnrýndi ákvörðun Tryggingastofnunar á Alþingi 29. apríl síðast liðinn þegar ljóst var að stofnunin ætlaði að synja friðargæsluliðunum um bætur og vonaðist hann þá til að áfrýjuninni yrði tekið af meiri sanngirni. Sagði hann meðal annars að friðargæslumenn væru aldrei í fríi. Aðspurður hvort sinnaskiptin séu tilkomin vegna gagnrýni utanríkisráðherra segir Karl Steinar að fyrri ákvörðunin hefði verið byggð á upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu og það sem varð til þess að ákvörðuninni var breytt voru nýrri og betri upplýsingar frá því sama ráðuneyti. Ennfremur segir hann að Tryggingastofnun leggi til að 3. kafla laga um almannatryggingar verði breytt þannig að tryggt verði í framtíðinni að friðargæsluliðar séu tryggðir allan sólarhringinn. "Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur að fá það viðurkennt að við vorum að vinna en ekki bara að túristast þarna líkt og halda mætti af fyrri ákvörðun," segir Haukur Grönli einn af friðargæsluliðunum þremur sem slasaðist. "Ég átti alltaf von á þessu," segir Steinar Örn Magnússon enn hann slasaðist töluvert í sprengingunni. Hann sagði að það hefði aðeins verið misskilningur á milli stofnanna sem olli því að þeim var fyrst synjað um bætur. Steinar gengur ekki enn heill til skógar og er hann ennþá með átta sprengjubrot í sér. "Málmleitartækin flauta alltaf á mig þegar ég fer í gegnum vopnaleit á flugvöllum," segir hann kankvís. Hann á enn eftir að gangast undir rannsóknir vegna áverkanna sem hann hlaut í sprengingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×