Erlent

Með 64 tonn af kvikasilfri um borð

Norski sjóherinn hefur staðfest að 64 tonn af kvikasilfri séu um borð í þýsku kafbátsflaki undan ströndum Noregs. Norsk náttúruverndarsamtök hafa krafist þess að kvikasilfrinu verði bjargað úr flakinu. Þýski kafbáturinn U-864 liggur á hafsbotni á 150 metra dýpi skammt frá bænum Fedje rétt norðan við Björgvin. Breskt tundurskeyti sökkti bátnum árið 1945 en ekki var vitað fyrr en nýlega að svo mikið magn kvikasilfurs væri í flakinu. Til samanburðar má geta þess að heildarmagns kvikasilfurs sem barst út í umhverfið við Noreg á síðasta ári var nálægt því eitt tonn. Berist mikið magn af kvikasilfri út í hafið er hætta á að það berist upp fæðukeðjuna og mengi þannig sjávarfang sem notað er til manneldis. Hæstan styrk kvikasilfurs er jafnan að finna í ránfiskum, sem eru efstir í fæðukeðjunni og því meir sem þeir verða eldri. Kvikasilfur getur meðal annars valdið taugaskemmdum og misþroska hjá börnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×