Erlent

Karpað um kjarnorkumálin

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hvöttu í gær Írana til að sýna sveigjanleika við samningaborðið í viðræðum um kjarnorkumál sem haldnar verða síðar í vikunni. Talsverð spenna hefur ríkt undanfarin misseri í samskiptum klerkastjórnarinnar í Íran og ríkisstjórna á Vesturlöndum sem telja Írana þróa kjarnorkuvopn á laun. Í síðustu viku kváðust stjórnvöld í Teheran ætla að hefja auðgun úrans á nýjan leik til að nota við raforkuvinnslu. Þessu eru hins vegar ráðamenn í Bandaríkjunum og Evrópu tregir til að trúa. Á morgun hefst fundur Írans og Evrópusambandsins í Genf um kjarnorkumálin. Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, skoraði á Írana að láta af áformum sínum um auðgun úrans og í staðinn gætu þeir vænst að fá fríverslunarsamning við Evrópusambandið og frekari efnahagsaðstoð. Síðustu vikur hafa erindrekar ríflega 180 ríkja rætt um endurskoðun sáttmála um takmörkun útbreiðslu kjarnorkuvopna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Ráðstefnunni lýkur á föstudaginn og hefur árangurinn af viðræðunum verið sáralítill.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×